You are currently viewing Fyrsta námskeið í fjallamennsku

Fyrsta námskeið í fjallamennsku

Áfanginn gönguferð í fjallamennskunámi FAS fór fram dagana 31.ágúst – 6.september. Það má segja að haustið hafi heldur betur tekið hressilega á móti þeim 27 nemendum sátu námskeiðið ásamt fimm kennurum. Dagskráin var þétt, veðrið með ýmsu móti, lærdómskúrfan brött en hópurinn afburða jákvæður og duglegur.

Námskeiðið hófst í Nýheimum snemma morguns þann 31. ágúst. Þar voru mættir nemendur sem koma úr öllum áttum og eru á öllum aldri sem gerir um leið hópinn fjölbreyttan og hlaðinn alls konar reynslu. Nemendur voru tilbúnir að læra á allt sem tengist gönguferðum og að kynnast nýju fólki. Þann daginn var lögð áhersla á kynningar, skipulag ferða, kortalestur, áttavitann, veður og hvernig skyldi pakka fyrir gönguferð. Búnaði skólans var skipt á nemendur sem fóru svo heim með heimavinnu, kort og áttavita að vopni.

Daginn sem gönguferð 1 gekk í garð hófst ferðin í Nýheimum á fyrirlestri um leiðarkort sem unnið var að fyrir ferðina. Áhersla var lögð á að vinna eingöngu með kort og áttavita en leiðin lá í Bæjardal í Lóni þar sem gista átti fyrri nóttina. Veðurspáin bauð upp á bleytu og vind sem átti heldur betur eftir að setja sitt strik í reikninginn. Gangan var nýtt til kortalesturs, í rötunaræfingar og í lok dags fannst góður náttstaður og veglegum tjaldbúðum var slegið þar upp. Tjaldbúðarlífið gekk vel, kúkaholupælingar voru efst á dagskrá en nú ætti ekki að fara á milli mála hvernig þeim málum er háttað.

Annar göngudagur átti að enda í Smiðjunesi neðst í Hvannadal en eftir langan dag af rötun um gil, gljúfur og ár í rigningu fann hópurinn sér sæmilegan stað efst í Hvannadal. Fólk var fljótt að skella upp búðum og hverfa inn í tjöld eftir stuttan kvöldverð enda bætti stöðugt í regnið. Þegar allir voru skriðnir inn í poka leið ekki á löngu þar til fór að blása allhressilega og stuttu síðar fóru fyrstu tjöldin að fjúka. Þarna komu styrkleikar hópsins vel í ljós en samstaðan og hjálpsemin sem greip um sig meðal nemenda og kennara við það að laga tjöld, staga og bera steina í hávaðaroki um miðja nótt var mögnuð. Þetta atriði var eins og eftir pöntun kennara enda eru svona kennslustundir þær allra bestu.

Nóttin var þó svefnlítil en mannskapurinn lét það ekki á sig fá og gekk með jöfnum og góðum hraða niður Hvannadalinn og í gegnum litríkt Hvannagilið þar sem áin var þveruð nokkrum sinnum. Rútan beið undir Raftagili og rútuferðin á Höfn var róleg enda nýttu hana flestir í kærkominn lúr. Þá var dagskránni lokið þennan daginn en þreytan sagði til sín og kennslustund í þverun straumvatna fékk að bíða betri tíma.

Dagur fjögur var vindasamur verkefna- og fyrirlestradagur þar sem nemendur skipulögðu næstu gönguferð. Eftir kynningar hópa á flottum leiðum og spennandi kosningu var ákveðið að ganga Krossbæjarskarð við Ketillaugarfjall, gista í Laxárdal og nýta Laxá í Nesjum fyrir þverun straumvatna seinni daginn.

Seinni gangan byrjaði í blíðu en nemendum var skipt í fimm hópa sem skiptust á að leiðsegja hópnum. Þau lærðu af hvort öðru og fengu ráð frá kennurum og samnemendum um hvernig gott er að leiða hópa í fjallgöngum en flottar umræður um leiðsögn, hópstjórnun og rötun sköpuðust og allir fengu að spreyta sig. Þegar komið var að náttstað í Laxárdal spruttu tjöldin upp og greinilegt að handtökin væru komin í fingurna.

Síðasti dagurinn rann upp en hópurinn gekk niður með Laxá í morgunsárið. Það er mikilvægt að rýna og lesa í ár fyrir þverun og kunna skil á eiginleikum sem kynnu að gera þverun erfiða eða hættulega. Eftir vatnalesturinn var bara eitt í stöðunni; að skella sér út í. Alls kyns aðferðir voru prófaðar til þverunar og loks var synt í straumnum. Þrátt fyrir bleytu og kulda var gleðin allsráðandi og sumir fóru meira að segja margar ferðir niður strauminn! Sundspretturinn setti punktinn yfir i-ið og nú var kominn tími til þess að slíta námskeiðinu.

Vikan var vægast sagt skemmtileg, pökkuð af lærdómi og gekk eins og í sögu. Aðstæður voru krefjandi á stundum en jákvæðnin var alltaf til staðar og stutt í gleðina. Metnaður og dugnaður hópsins er áþreifanlegur og smitandi en kennarahópurinn vildi helst vinna með þeim í allt haust og vetur. Næsti hópur kennara fær þó að njóta þeirra frábæra félagsskapar í komandi viku á klettaklifurnámskeiði og það verður spennandi að heyra af þeim æfingum. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar af Skúla Pálmasyni nemanda í fjallamennsku. Þá er líka hægt að fylgjast með á instragram síðu námsins.

Ástvaldur Helgi, Elín Lóa, Erla Guðný, Sólveig Valgerður og Tómas Eldjárn
sem voru kennarar á fyrsta námskeiði vetrarins.