Klettaklifur og línuvinna

Klettaklifur og línuvinna

Námskeiðið Klettaklifur og línuvinna var haldið dagana 14.-20. september. Kennarar á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Íris Ragnarsdóttir Pedersen, Magnús Arturo Batista og Stefanía R. Ragnarsdóttir. Markmið námskeiðsins er að kynna nemendur fyrir klettaklifri og leggja grunninn að þeirri línuvinnu sem nemendur munu halda áfram að læra í vetur. Námskeiðið var haldið á Hornafirði og  í Öræfum.

Námskeiðið hófst á kynnningu, en þetta var í fyrsta skipti sem kennarar og nemendur hittust. Farið var yfir skipulag námskeiðsins, algengir hnútar kenndir og búnaði deilt til nemenda. Að því loknu stóð til að fara á Hafnartanga undir Kambhorni í grjótglímu, þ.e. klifur í lágum klettum, en vegna veðurs varð hópurinn frá að hverfa. Þess í stað var stoppað við Geithella, en þar hefur ekki verið klifrað áður svo vitað sé. Staðurinn reyndist góður og náðu allir að stíga sín fyrstu skref í klettaklifri þar.

Að morgni þriðjudagsins hélt hópurinn vestur á Hnappavelli, helsta klettaklifursvæði landsins og voru tjaldbúðir settar upp. Nemendur lærðu rétta notkun sigtóla og hvernig þau má nota til sigs og til þess að tryggja klifrara. Eftir vel heppnaðar æfingar settu kennarar upp ofanvað í góðar byrjendaleiðir í Hádegishamri og Þorgeirsrétt austari og klifruðu nemendur og kennarar fram á kvöld. Miðvikudagurinn var notaður í meira klifur auk þess sem fjallað var um leiðsluklifur, bergtryggingar og gerð akkera. Hópurinn er með eindæmum góður og sýndu allir góða færni, bæði í tæknilegum atriðum sem og klifrinu sjálfu.

Á fimmtudeginum spáði lægðagangi og rigningu og var dagurinn því notaður innandyra í Káraskjóli í Freysnesi en þar hefur Klifurfélag Öræfa komið upp klifurvegg og æfingaaðstöðu. Nemendur voru kynntir fyrir innanhússklifri, en það er ört vaxandi íþrótt, auk þess sem nemendur æfðu júmm, þ.e. að klifra upp línu, og að þræða akkeri. Í lok dags var einnig fjallað um ferli fjölspannaklifurs og einstreymisloka, en á það mundi reyna meira á laugardeginum.

Föstudagurinn tók á móti hópnum með sól og blíðu og því var farið aftur á Hnappavelli. Stóra verkefni dagsins var að láta nemendur byggja sín eigin akkeri ofan við hamrana og síga svo niður þá. Þetta tókst mjög vel og var gaman að sjá framfarir nemendanna. Að því loknu var klifrað meira og augljóst að klifur seinustu daga hafði skilað sér, enda náðu margir að klára leiðir sem þeim hafði ekki tekist áður og aðrir reyndu sig við erfiðari leiðir með góðum árangri.

Laugardaginn var haldið aftur á Vestrahorn og ferli fjölspannaklifurs æft í hressandi roki. Ofan við gömlu Bretabúðirnar er klettahryggur sem er afar vel til þess fallinn og hefur verið notaður áður, en hefur til þessa verið nafnlaus. Hryggurinn hefur nú fengið nafn og gráðu, Námsbraut PD- 150m. Æfingin er afar góð til þess að taka saman helstu tæknilegu atriði námskeiðsins, en hér reyndi á tryggingi klifrara, leiðsluklifur, beggtryggingar, umgengni línu, gerð akkera, einstreymisloka o.fl.

Að æfingunni lokinni hélt hópurinn aftur í FAS, skilaði og gekk frá búnaði, námskeiðið tekið saman, spurningum svarað og frekari ráðleggingar til nemenda gefnar. Þar sem veður og aðstæður höfðu spilað með okkur, auk þess að hópurinn var afar fróðleiksfús og nemendur fljótir að tileinka sér námsefnið, var ekki þörf á frekari útiæfingum í rigningunni á sunnudeginum, svo hann var notaður í frágang, gerð námsmappa og ferðalög heim.

Við þökkum kærlega fyrir frábæra viku og hlökkum til að fylgjast með þessum frábæra nemendahópi vaxa og dafna í vetur!

Vert er að taka fram að skólinn var í góðu samstarfi við landeigendur, Boltasjóð og björgunarsveitina Kára í Öræfum meðan á námskeiðinu stóð og þökkum við fyrir það. Meðfylgjandi eru myndir frá @skulipalmason á Instagram.

Árni Stefán