Leiðsögumaður með áherslu á jöklaleiðsögn

Fyrsta árið við Fjallaskóla Íslands er 60 einingar og leggur áherslu á jöklaleiðsögn. Námið miðar að því að styrkja nemendur á öllum sviðum fjallamennsku og undirbýr nemendur fyrir jökla- og gönguleiðsögn. Nemendur sem ljúka náminu öðlast réttindin Jöklaleiðsögn 1 frá félagi fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG), þjálfun í fyrstu hjálp frá Landsbjörgu auk námskeiða í fjallamennsku, klifri, snjóflóðafræðum, vetrarferðamennsku, fjallaskíðamennsku, hájöklaferðamennsku og fleiru.

Námið samanstendur að mestu leyti af verklegum vettvangsáföngum, sem eru 4-7 dagar í senn, en einnig bóklegu fjarnámi. Hægt er að taka námið á tveimur eða fjörum önnum.

Sjá dagatal náms í jöklaleiðsögn.

Skilyrði fyrir því að hefja nám í leiðsögn með áherslu á jöklaleiðsögn eru:

  • Að hafa lokið stúdentsprófi, sveinsprófi eða öðru sambærilegu námi. Próf í frumgreinadeildum háskóla teljast sambærileg stúdentsprófi. Umsækjendur sem náð hafa 18 ára aldri og eru án formlegrar menntunar en hafa starfað í ferðaþjónustu við fjallamennsku geta óskað eftir undanþágu frá inntökuskilyrðum.

Kostnaður við námið er 350.000 kr. á önn //  700.000 kr. fyrir árið. 
Ef sótt er um hálft nám greiðast 200.000 kr. fyrir hverja önn.
Námið er lánshæft.
Nemendur greiða sjálfir fyrir ferðakostnað, gistingu og uppihald á meðan á námskeiðum stendur.