Leiðsögumaður með áherslu á Fjallgönguleiðsögn

Annað árið við Fjallaskóla Íslands er námsleiðin leiðsögumaður með áherslu á fjallgönguleiðsögn. Námið 60 eininga sérhæft nám í fjallamennsku og leiðsögn á hájöklum og víðar og fer fram yfir tvær annir.

Námið er ætlað sem framhald af námsleiðinni leiðsögumaður með áherslu á jöklaleiðsögn og er ætlað að dýpka þekkingu nemenda frá fyrra árinu. Lögð er áhersla á öryggi og að nemendur öðlist færni til þess að leiða fólk um fjöll á öruggan hátt.

Hluti a náminu eru krefjandi réttindanámskeið í bland við almenn námskeið í leiðsögn á vegum skólans. Réttindanámskeið eru: AIMG Fjallgönguleiðsögn 1, Vettvangshjálp í Óbyggðum (Landsbjörg) og nemendum stendur einnig til boða að taka AIMG Jöklaleiðsögn 2 og Landvarðaréttindi. Önnur námskeið eru: hájöklaferðamennska 2, leiðangur yfir Vatnajökul, ísklifur, fjallaskíðamennska, snjóflóðafræði og leiðsögn, framhaldsnámskeið í klettaklifri og skiptinám erlendis.

Námið samanstendur að mestu leyti af verklegum vettvangsáföngum, sem eru 4-7 dagar í senn, en einnig bóklegu fjarnámi. Námið er kennt á tveimur önnum. 

Sjá dagatal náms í fjallgönguleiðsögn.

Skilyrði fyrir því að hefja nám í leiðsögn með áherslu á fjallgönguleiðsögn er að hafa lokið námsleiðinni leiðsögumaður með áherslu á jöklaleiðsögn. Umsækjandi skal hafa lokið stúdentsprófi, sveinsprófi eða öðru sambærilegu námi. Próf frá frumgreinadeildum háskóla teljast sambærileg stúdentsprófi. Umsækjendur sem hafa náð 18 ára aldri og eru án formlegrar menntunar en hafa starfað í ferðaþjónustu við fjallamennsku geta óskað eftir undanþágu frá inntökuskilyrðum.

Kostnaður við námið er 350.000 kr. á önn eða 700.000 kr. fyrir árið. Ef sótt er um hálft nám greiðast 200.000 kr. á önn. Nemendur greiða sjálfir fyrir ferðakostnað, gistingu og uppihald á meðan á námskeiðum stendur.