Skipulag framhaldsnáms
Námsleiðin leiðsögumaður með áherslu á fjallgönguleiðsögn er 60 eininga sérhæft nám í fjallamennsku og leiðsögn. Nemendur þurfa að ljúka 54 einingum til að útskrifast. Námið spannar tvær annir.
Námi á brautinni er ætlað til að auka hæfni nemenda til að ferðast um fjalllendi og óbyggðir á Íslandi og geta farið fyrir hópi fólks á öruggan og ábyrgan hátt.
Til að hefja nám í leiðsögn með áherslu á fjallgönguleiðsögn, skal umsækjandi hafa lokið grunnnám í fjallamennsku (leiðsögumaður með áherslu á jöklaleiðsögn), stúdentsprófi, sveinsprófi eða öðru sambærilegu námi. Próf frá frumgreinadeildum háskóla teljast sambærileg stúdentsprófi. Umsækjendur sem hafa náð 18 ára aldri og eru án formlegrar menntunar en hafa starfað í ferðaþjónustu við fjallamennsku geta óskað eftir undanþágu frá inntökuskilyrðum.
Bóklegir áfangar í fjallamennskunámi FAS eru kenndir í fjarnámi og verklegir áfangar kenndir jafnt og þétt yfir önnina í 4-7 daga í senn. Hægt er að skoða dagatal framhaldsnáms hér á síðunni til að sjá hvenær áfangar eru kenndir.
Námið veitir nemendum réttindi innan Félags íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG). Nemendur ljúka AIMG fjallgönguleiðsögn 1 og einnig geta nemendur tekið valáfangan AIMG jöklaleiðsögn 2 (ekki skylduáfangi). Einnig fara nemendur á námskeiðið Vettvangs hjálp í óbyggðum (e.Wilderness first responder)
Nemendur þurfa að eiga persónulegan búnað og lista yfir þann búnað er hægt að finna hér á síðunni undir „Búnaður“. Skólinn útvegar tæknilegan búnað, svo sem tjöld, jökla- og klifurbúnað, fjallahjól, skíði og kayak svo eitthvað sé nefnt. Nemendur er þó hvattir til að kaupa persónulegan sérhæfðan búnað meðan á námi stendur
Í flestum vettvangsferðum skólans er lagt upp með það að nemendur gisti í tjöldum. Innifalið í einingaverði skólans er aðgangur að skólatjöldum, ásamt stóru „hústjaldi“ sem notast er við í sumum ferðum. Í öðrum ferðum notast nemendur við lítil tjöld, hægt er að fá tjöld í láni hjá skólanum endurgjaldslaust. Þegar notast er við lítil tjöld er stundum sett upp eldhústjald eða reynt að hafa aðgang að svæði þar sem nemendur geta athafnað sig inni ef við erum í byggð.
Í einstaka tilfellum munum við biðja nemendur að bóka gistingu inni eða í sameiginlegum skálum eða t.d. hosteli eða slíkt og þá greiða nemendur fyrir það sjálfir.
Allir nemendur í FAS greiða 6000 kr. skráningargjald á önn, en auk þess er einingagjald í fjallamennskunámi fas 150.000 kr á ári. Hægt er að greiða 150.000 kr við upphaf náms eða 75.000kr á önn. Innifalið er notkun á búnaði skólans og aðgangur að stóru tjaldi og eldhústjaldi þegar við á, ásamt kostnaði við gistingu á tjaldsvæðum.
Ef gist er í gistirými standa nemendur sjálfir undir þeim kostnaði sem og öllum kostnaði við akstur og fæði meðan á vettvangsferðum stendur.
Nemendur þurfa einnig að eiga persónulegan búnað og ef nemendur eiga ekki þann búnað sem ætlast er til að þeir eigi getur verið auka kostnaður fyrir nemendur að koma sér upp búnaði, sjá meira um það undir búnaður hér á síðunni.